18. júní 2021

Aðeins um Bláma

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Bláma er ætlað að ýta undir og styðja við orkuskipti með áherslu á sjávartengda starfsemi og flutninga.

En hvers vegna Vestfirðir? Hvað gerir Vestfirði að spennandi stað þegar kemur að nýsköpun í orkumálum, orkuskiptum í flutningum og sjávartengdri starfsemi?

Styrkleikar Vestfjarða liggja fyrst og fremst í nálægð við gjöful fiskimið og skjólgóðum fjörðum sem henta vel til fiskeldis. Á Vestfjörðum þrífst fjölbreyttur sjávarútvegur, öflugt fiskeldi, vinnsla á þara og þörungum ásamt flutningum á sjó og landi. Þannig eru Vestfirðir upplagður staður til að prófa, nota og þróa notkun á rafmagni og grænu eldsneyti fyrir sjávartengda starfsemi og við flutninga.

Vestfirðingar hafa áður verið í fararbroddi þegar kemur að tæknilausnum og nýsköpun. Stanley, fyrsti vélbáturinn, var gerður út frá Bolungarvík og fyrsta íslenska rækjan var veidd í Djúpinu og unnin á Ísafirði. Póls, Keresis og 3X Stál eru öll vestfirsk fyrirtæki sem hafa verið leiðandi á sínu sviði þegar kemur að nýsköpun og framförum.

Næsta framfaraskref sem stigið verður á Vestfjörðum gæti því hæglega orðið aukin rafvæðing sem og notkun og þróun á grænu eldsneyti á borð við vetni eða aðra græna orkugjafa.

En notar einhver rafeldsneyti á borð við vetni í dag? Já. Vetnisbílar eru í notkun víða um heim og þar á meðal á Íslandi. Norðmenn eru að smíða ferju sem mun ganga á vetni og í Japan er verið að smíða dráttarbát sem nýtir vetni og rafmagn. Jafnframt eru mörg af stærstu skipafélögum heims að undirbúa notkun á rafeldsneyti fyrir flotann sinn; þá helst vetni og ammóníak.

Hvar eigum við að byrja? Á meðan við erum að þróa og prófa, gæti ríkið ívilnað útgerðum sem fjárfesta í grænni orku með því að gefa afslátt af auðlindagjaldi eða beita kvótaívilnunum á borð við línuívilnun.

Hægt er að sjá fyrir sér að strandveiðibátar sem keyra á rafmagni fái að veiða stærri dagskammt, útgerðir sem nýta metanól borga lægra auðlindagjald og mögulega gætu fiskeldisfyrirtæki sem nota vetni á þjónustubáta fengið afslátt af gjöldum í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Ríkið gæti svo stutt við sveitarfélög sem vilja rafvæða hafnir og koma upp aðstöðu til að afgreiða rafeldsneyti.

Þetta eru einungis dæmi og hugmyndir um hvernig hið opinbera gæti ýtt enn frekar undir orkuskiptin og haldið áfram að standa þétt með fyrirtækjum og einstaklingum sem taka stökkið yfir í græna orku eins og gert hefur verið með rafvæðingu fólksbíla.

Við hjá Bláma erum tilbúin og hvetjum öll þau sem hafa áhuga á að prófa grænar lausnir, auka nýtingu eða framleiðslu á grænni orku, eru með ábendingar eða spurningar, til að hafa samband eða koma í heimsókn.

Þorsteinn Másson. Framkvæmdastjóri Bláma.

Fréttir

Fleiri fréttir
1. september 2024
Innviðafélag Vestfjarða og Blámi : opinn kynningarfundur á Ísafirði
Lesa meira
19. ágúst 2024
Úthlutanir úr Orkusjóð
Lesa meira
27. júní 2024
Blámi leitar að liðsauka
Lesa meira
9. apríl 2024
Staða hleðsluinnviða á Vestfjörðum
Lesa meira