16. apríl 2021

Blámi hugmynda og elju

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Við hjá Landsvirkjun bindum miklar vonir við Bláma, samstarf okkar með Vestfjarðastofu og Orkubúi Vestfjarða um orkuskipti og orkutengda nýsköpun. Tækifærin á Vestfjörðum eru ótal mörg og ef ég þekki Vestfirðinga rétt verður hvorki skortur á hugmyndum né elju til að hrinda þeim í framkvæmd.

Með Bláma ætlum við að efla nýsköpun og þróa orkuskiptaverkefni. Með orkuskiptum er átt við að losa okkur við bensín og olíur og nýta í staðinn grænt eldsneyti. Slík orkuskipti eru óhjákvæmileg. Við erum þegar á fleygiferð í orkuskiptum í vegasamgöngum, eins og allir rafbílar landsmanna bera vitni um. Orkuskiptin eru svar okkar við loftslagsbreytingum, en það hrekkur hvergi til að horfa eingöngu til rafbíla. Við þurfum að beina sjónum okkar að sjávarútvegi og fiskeldi, svo tvennt sé nefnt sem snertir Vestfirðinga beint.

Þetta er ekki einfalt verkefni og við höfum ekki öll svörin. Í sumum tilvikum erum við meira að segja enn að móta spurningarnar. Ég hef hins vegar þá trú, að hvergi sé líklegra að finna lausnir en meðal þeirra sem hafa kynslóðum saman skapað verðmætar vörur á sjálfbæran hátt og selt á kröfuharða, erlenda markaði. Þetta á við um hefðbundinn sjávarútveg í gegnum aldirnar og í vaxandi mæli um fiskeldi og aðrar greinar.  Með því að nýta hreina innlenda orku í meira mæli geta vestfirsk fyrirtæki styrkt sig enn frekar í samkeppninni. Orkuskipti í sjávarútvegi myndu reyndar auka samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs gríðarlega í alþjóðasamhengi.

Ég efast ekki um að á næstu árum og áratugum verða enn fleiri framúrskarandi vörur framleiddar á Vestfjörðum og fluttar til neytenda án losunar. Blámi ætlar að vera með á þeirri vegferð. Við þurfum að taka saman höndum því margar hendur vinna létt verk. Þegar orkufyrirtæki, sveitarfélög, sjávarútvegsfyrirtæki og íbúar leggjast á eitt, með sameiginlega framtíðarsýn, getur útkoman orðið mögnuð.

Hreint loft og tugmilljarða sparnaður

Við getum orðið fyrst þjóða til að losa okkur við jarðefnaeldsneyti. Allir sjá hvílíkur léttir það yrði, í orðsins fyllstu merkingu, ef við þyrftum ekki að brenna bensíni og olíum lengur. Það blasir við hver umhverfisáhrifin yrðu. En þjóðin ver líka árlega um 50 milljörðum króna til að kaupa jarðefnaeldsneyti fyrir bíla- og skipaflotann og aðrir 50 milljarðar árlega fóru til kaupa á flugvélaeldsneyti, þegar ferðaþjónustan var upp á sitt besta. Við spörum um 80 milljarða á ári með því hita flest hús landsmanna með jarðhita, í stað þess að kaupa eldsneyti til þess. Við getum gert ótal margt áhugaverðara fyrir slíkar ofurfjárhæðir. Með því að skipta yfir í innlenda, græna orku öðlumst við orkusjálfstæði. Landsvirkjun ætlar að leggja sitt af mörkum með rafmagni, vetni eða öðru rafeldsneyti.

Þorsteinn Másson framkvæmdastjóri Bláma og hans fólk ætla á næstunni að kynna verkefnið fyrir íbúum og fyrirtækjum á Vestfjörðum. Ég hvet þau sem hafa áhuga að setja sig í samband við Bláma og slást í för með okkur á leið til grænni, hreinni og bjartari framtíðar.

Hörður Arnarson

forstjóri Landsvirkjunar

Fréttir

Fleiri fréttir
1. september 2024
Innviðafélag Vestfjarða og Blámi : opinn kynningarfundur á Ísafirði
Lesa meira
19. ágúst 2024
Úthlutanir úr Orkusjóð
Lesa meira
27. júní 2024
Blámi leitar að liðsauka
Lesa meira
9. apríl 2024
Staða hleðsluinnviða á Vestfjörðum
Lesa meira