21. desember 2023

Topp 10 orkuskiptaverkefni 2023

5 rafmagnstrukkar Steypustöðvarinnar (mynd: Steypustöðin)

Við hjá Bláma tókum saman lista yfir áhugaverð orkuskiptaverkefni á árinu sem er að líða.

Hér eru þau 10 orkuskiptaverkefni sem okkur fannst standa upp úr á síðasta ári. Listinn hefði vissulega getað verið lengri en sem betur fer eru mörg spennandi verkefni í gangi og mikið af metnaðarfullu fólki og fyrirtækjum að gera góða hluti þegar kemur að orkuskiptum.

 

1. Landsvirkjun,Linde-gas, N1 og Olís

Landsvirkjun, Linde, N1 og Olís hafa ráðist í  metnaðarfulla uppbyggingu virðiskeðju græns vetnis á Íslandi. Markmiðið er að gera vetni að raunhæfum kosti sem orkugjafa í samgöngum á Íslandi, ekki síst fyrir vörudreifingu, þungaflutninga og stærri farartæki, þar sem bein rafvæðing hentar síður. Nánar

 

 

2.  Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Umhverfis, -Orku og Loftlagsráðuneytið unnu Loftlagsvegvísa með helstu atvinnugreinum á Íslandi. Vegvísarnir eiga að ramma inn tillögur um aðgerðir og úrbætur sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum til að stuðla að því að loftslagsmarkmið Íslands náist. Mikil áhersla var lögð á samráð við gerð vegvísanna til að þeir endurspegluðu fjölbreytileika íslensks atvinnulífs. Nánar

 

3. Samherji

Samherji kynnti metnaðarfullt verkefni til að nota ammoníak sem eldsneyti á eitt af skipum félagsins. Um er að ræða brautryðjendaverkefni en miklar vonir eru bundnar við rafeldsneyti á borð við ammoníak til að draga úr losun CO2 stærri skipa. Verkefnið var styrkt af Orkusjóði. Nánar

 

4. Carbon Recycling International

Íslenska nýsköpunar- og tæknifyrirtækið CRI eða Carbon Recycling International hélt áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar þegar kemur að orkuskiptum á árinu sem er að líða.  Félagið hannar og smíðar búnað sem nýtir fangaðan útblástur af CO2 og vetni til að framleiða metanól. Nýlega skrifaði CRI undir samning við þýska eldsneytisframleiðandann P1-fuels um að útvega búnað til framleiðslu á grænu metanóli. Nánar

 

5. Orkubú Vestfjarða

Orkubú Vestfjarða hefur sett mikinn kraft í að leita eftir heitu vatni með stuðningi frá Umhverfis -, Orku og Loftlagsráðuneytinu og Orkustofnun. Með því að finna og nýta heitt vatn á helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum verður hægt að koma alveg í veg fyrir notkun jarðefnaeldsneytis þegar skortur verður á raforku. Nánar

 

6. Súðavíkurhreppur

Súðavíkurhreppur tekur núna þátt í spennandi verkefni sem snýst um að nota vannýtta innviði til að framleiða heitt vatn með nýstárlegri tækni. Markmiðið er að spara raforku og draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Verkefnið gæti orðið fyrirmynd að stærri verkefnum þar sem notast verður við sambærilega tækni. Nánar

 

7. Steypustöðin

Á árinu sem er að líða hefur Steypustöðin fjárfest í og tekið í notkun fimm rafknúna vörubíla sem saman standa af þremur steypubílum, steypudælubíl og dráttarbíl. Þetta framtak er mikilvægt í að ryðja brautina fyrir frekari innleiðingu á stórum rafknúnum ökutækjum og virðingarvert að sjá Steypustöðina taka svona afgerandi skref í átt að orkuskiptum. Nánar

 

8. Akraneskaupstaður

Akranes varð fyrsta sveitarfélag á landsbyggðinni til að bjóða upp á almenningssamgöngur eingöngu knúnar með rafmagni. Um er að ræða tvo rafmagns strætisvagna í eigu Hópferðabíla Reynis Jónssonar sem sér um almenningssamgöngur í sveitarfélaginu. Nánar

 

9. Vestfirskar Ævintýraferðir

Rétt á eftir Akranesi koma svo Vestfirskar Ævintýraferðir sem fjárfestu í rafmagnsrútu sem sinnir almenningssamgöngum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Um er að ræða ALTUS/Mercedes Benz frá Öskju en bíllinn mun einnig flytja ferðafólk um ægifagra náttúru Vestfjarða á sumrin. Nánar

 

10. Íslensk Nýorka og Eimur

RECET er leitt er af Íslenskri Nýorku og Eim og miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir. Vestfjarðastofa og SSNE eru þátttakendur í þessu spennandi verkefni ásamt erlendum sveitarfélögum en verkefnið stendur yfir í þrjú ár. Nánar

Fréttir

Fleiri fréttir
11. nóvember 2024
Edda Bára til Bláma
Lesa meira
24. október 2024
Samstarf um Bláma endurnýjað
Lesa meira
1. september 2024
Innviðafélag Vestfjarða og Blámi : opinn kynningarfundur á Ísafirði
Lesa meira
19. ágúst 2024
Úthlutanir úr Orkusjóð
Lesa meira