30. desember 2024

Áhugaverð verkefni í orkugeiranum 2024

Borhola Landsvikjunar í Kröflu þar sem borða var í kviku. (Mynd: Landsvirkjun)

Undir lok síðustu tveggja ára höfum við hjá Bláma tekið saman topplista yfir áhugaverðustu orkuskiptaverkefni yfirstandandi  árs. Í ár ákváðum við að breyta til og skoða þau verkefni sem okkur fannst skera sig úr í orkugeiranum árið 2024. 

Eitt það markverðasta sem gerðist á árinu var vinna HS Veitna og tengdra aðila við að koma heitu vatni til íbúa í kappi við eldgos og hraun. Þessi vinna, sem er enn í gangi, fer sannarlega í sögubækurnar og undirstrikar hversu dýrmætur og mikilvægur jarðvarminn er fyrir íslenskt samfélag. Það var einnig áhugavert að sjá að heitavatnspípurnar skemmdust ekki meira en raun bar vitni við það að  fara undir mörg hundruð gráðu heitt  glóandi hraun.
Lesa meira 

Talandi um heitt vatn, þá fann Orkubú Vestfjarða loksins nýtanlegan jarðhita á Ísafirði eftir áratuga leit. Þessi heitavatnsfundur sýnir að þrautseigja og samvinna skilar á endanum árangri. Gera má ráð fyrir að þessi eina hola geti fasað út sem nemur 6-8 MW af raforku. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Orkustofnun stóðu þétt við bakið á verkefninu og þessi árangur gefur von um að nýtanlegur jarðhiti geti fundist á öðrum jaðarsvæðum sem áður voru afskrifuð.
Lesa meira 

Það er ekki hægt að fjalla um orkugeirann án þess að minnast á íslenska hátæknifyrirtækið CRI (Carbon Recycling International). Fyrirtækið býr yfir tækni til að framleiða grænt metanól úr vetni (H) og koltvísýringi (CO₂). Grænt metanól getur meðal annars  komið í stað jarðefnaeldsneytis í skipaiðnaði og víðar. CRI vinnur nú að uppsetningu á metanólverksmiðju í Kína sem á að framleiða 170.000 tonn af grænu metanóli árlega og verður hún stærsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum.
Lesa meira 

Ef við lítum svo til vindorkunnar þá hefur Landsvirkjun pantað 28 vindmyllur sem verða settar upp í Búrfellslundi við Vaðöldu. Undirbúningur þessa verkefnis hefur staðið yfir lengi og nú er loksins útlit fyrir að fyrsti „alvöru“ vindmyllugarðurinn á Íslandi verði að veruleika. Íslenska raforkukerfið á enn mikið inni þegar kemur að nýtingu vindorku í bland við fallvatnsvirkjanir.
Lesa meira 

Þá hafa Norðurorka og álþynnuverksmiðjan TDK skrifað undir samning um að nýta glatvarma frá verksmiðjunni til húshitunar. Þetta gæti orðið mikilvægt tilraunaverkefni þar sem glatvarmi frá iðnaði er nýttur á hagkvæman hátt, til dæmis til húshitunar eða annarrar verðmætasköpunar.
Lesa meira 

Að lokum er vert að nefna að Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Krafla Magma Testbed (KMT) undirrituðu undir lok árs samstarfssamning um áframhaldandi rannsóknir og þróun á ofurheitum jarðhitaholum í námunda við kviku. Með þessu er mögulegt að stórauka aflgetu jarðhitavirkjana og bylta orkuframleiðslu með jarðhita.
Lesa meira 

Við hjá Bláma óskum samstarfsaðilum og landsmönnum öllum farsældar á komandi ári, þökkum gott samstarf á árinu 2024 og hlökkum til framhaldsins á árinu 2025.  

Fréttir

Fleiri fréttir
30. desember 2024
Áhugaverð verkefni í orkugeiranum 2024
Lesa meira
11. nóvember 2024
Edda Bára til Bláma
Lesa meira
24. október 2024
Samstarf um Bláma endurnýjað
Lesa meira
1. september 2024
Innviðafélag Vestfjarða og Blámi : opinn kynningarfundur á Ísafirði
Lesa meira