1. september 2024

Innviðafélag Vestfjarða og Blámi : opinn kynningarfundur á Ísafirði

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða, bjóða til kynningarfundar um samstarf Innviðafélagsins og Bláma mánudaginn 2. september kl. 13.

Atvinnulífið á Vestfjörðum hefur margfaldast að stærð á undanförnum árum, með auknum umsvifum og fjárfestingu í nýsköpun, sjávarútvegi, lagareldi og þjónustu. Velta 100 stærstu fyrirtækjanna á Vestfjörðum hafi vaxið um rúmlega 140% á árunum 2016-2022, og er hækkandi húsnæðisverð og aðflutningur á svæðið til marks um efnahagsævintýrið sem á sér stað á svæðinu.

Innviðauppbygging á Vestfjörðum hefur lengi setið á hakanum sem hefur leitt til ótryggra samgangna og reglulegs orkuskorts sem hvorutveggja skerðir lífsgæði íbúa og hamlar uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

Innviðafélag Vestfjarða og Blámi hefja samstarf við að finna leiðir til að flýta uppbyggingu og fjármagna samgönguinnviði og að orkuröyggi verði tryggt á svæðinu, svo hægt verði að halda uppbyggingu áfram á Vestfjörðum.

Innviðafélag Vestfjarða er nýstofnað félag sem hefur það að markmiði að hvetja til og efla innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Aðilar að félaginu eru stöndug fyrirtæki af öllum Vestfjörðum.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar.

Kynningin fer fram hjá Vestfjarðastofu, Suðurgötu 12, Ísafirði og er fjölmiðlum og hagaðilum velkomið að vera viðstaddir kynninguna.

Fréttir

Fleiri fréttir
21. ágúst 2025
Orkukort Vestfjarða
Lesa meira
14. maí 2025
Styrkir til kaupa á vöru- og hópferðabílum
Lesa meira
30. desember 2024
Áhugaverð verkefni í orkugeiranum 2024
Lesa meira
11. nóvember 2024
Edda Bára til Bláma
Lesa meira